*

sunnudagur, 18. febrúar 2018
Innlent 21. maí 2008 16:50

Vilja ekki tjá sig um málið

Formaður og fjármálastjóri Byggingafélags námsmanna kærðir til lögreglu

Ritstjórn

Hvorki Sigurður Páll Harðarson, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna, (BN) né Sigurður Grétar Ólafsson, formaður félagsins, vilja tjá sig við Viðskiptablaðið um þá kæru sem félagið hefur lagt fram á hendur fyrrverandi formanni og fjármálastjóra félagsins vegna meintrar misnotkunar á stöðu sinni til fjárhagslegs ávinnings.

Þeir vilja heldur ekki segja af eða á um það hvort leiguverð á íbúðum á vegum Byggingafélags námsmanna muni hækka á næstunni.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum voru fyrrverandi formaður og fjármálastjóri Byggingafélags námsmanna kærðir af stjórn félagsins til efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra fyrir meintan fjárdrátt í apríl síðastliðnum.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í dag að formaðurinn og fjármálastjórinn hefðu setið beggja vegna borðsins þegar kom að samningum um byggingu námsmannaíbúða við Þverholt-Einholt.

Vegna stöðu sinnar hafi þeir því gert samninga sem voru byggingafélaginu óhagstæðir en hagstæðir félagi eða félögum í þeirra eigu.

Málið í eðlilegum farvegi

Björn Þorvarðarson, aðstoðarsaksóknari hjá ríkislögreglustjóra, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að kæra í málinu væri kominn inn á borð til ríkislögreglustjóra.

„Kæran barst okkur fyrir tæpum hálfum mánuði og við erum enn að skoða málið og eigum til dæmis enn eftir að taka ákvörðun um hvort við þurfum að kalla eftir fleiri gögnum. Lengra er málið ekki komið en það er í eðlilegum farvegi," segir Björn.