Demókratar í bandaríska þinginu hafa lýst yfir efasemdum við áætlanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um gríðarlega miklar framkvæmdir í uppbyggingu innviða í landinu, jafnvel þó áætlanirnar hafi ekki enn litið dagsins ljós.

Hyggst Trump eyða að minnsta kosti 200 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 20 þúsund milljörðum íslenskra króna á næstu 10 árum, en féð á að nýta til að hvetja ríki, sveitarfélög og einkaaðila til að eyða allt að 1.600 milljörðum dala. Trump hefur lengi talið sig geta fengið stuðning Demókrata við framkvæmdunum en nú segja þeir að ekki sé um næga eyðslu að ræða að því er Bloomberg fréttastofan segir frá.

Hafa leiðtogar Demókrata í Öldungardeildinni kallað eftir 1.000 milljörðum dala í eyðslu alríksins, en félag bandarískra byggingarverkfræðinga segja að þörf sé á meira en 2 milljarða í aukin framlög til ársins 2025 til að hægt sé að lagfæra allt frá vegum, brúm og flugvöllum, auk almenningssamgangna og drykkjarvatns.

Eftir að Donald Trump hefur ekki náð að fá í gegn stórtækar breytingar á heilbrigðiskerfinu, en náð gríðarmiklum breytingum á skattkerfinu sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá, er fjárfestingaráætlun hans sögð sú næsta í röðinni hjá forsetanum.