Í ársbyrjun mynduðu nokkur stærstu flugfélög Evrópu hagsmunasamtökin Airlines for Europe, en þau berjast aðallega fyrir lækkun flugvallargjalda, skilvirku loftrými og niðurfellingu ónauðsynlegra skatta.

Verkföll flugumferðarstjóra víðs vegar um Evrópu hafa verið helsta viðfangsefni ársins hjá starfsmönnum samtakanna enda hafa þau valdið töluverðu raski á flugumferð í álfunni og reynst flugfélögum dýrkeypt síðustu misseri.

Viðræður við Icelandair og Wow

Aare Dünhaupt, talsmaður samtakanna segir í samtali við Túrista að viðræður séu við forsvarsmenn Icelandair og Wow air um að ganga í hagsmunasamtökin.

Dünhaupt segir að verið sé að kynna samtökin fyrir stjórnendum flugfélaga víðs vegar um Evrópu og segist hann eiga von á nýjum meðlimum frá fleiri löndum.

Flytja 500 milljón farþega

Nú þegar eru í samtökunum Lufthansa, British Airways, KLM og Air France, ásamt þremur umsvifamestu lággjaldaflugfélögum álfunnar, Ryanair, easyJet og Norwegian, en árlega ferðast með flugfélögum samtakanna 500 milljón farþegar.

„ Til samanburðar má nefna að í ár er gert ráð fyrir að samanlagður farþegafjöldi Icelandair og WOW air verði um eitt prósent af þessari tölu eða 5,3 milljónir farþega,“ segir í frétt Túrista.