Borgarráð hefur samþykkt sérstaka aðgerðaáætlun sem miða að því að draga úr rekstrarhalla hjá Reykjavíkurborg. Í tilkynningu frá borginni segir að aðgerðirnar séu afrakstur vinnu borgarráðs að fjármálum borgarinnar að undanförnu. Samstaða var um aðgerðirnar, að því er segir í tilkynningunni.

Eitt stærsta atriðið í áætluninni varðar tekjur af ferðamönnum. Í tilkynningunni segir að teknar verði upp viðræður við ríki og hagsmunaaðila um að gistináttagjald renni til sveitarfélaga. Þá er þess óskað að sveitarfélög fái hlutdeild í virðisaukaskatti af ferðaþjónustu, auknum innflutningsgjöldum af bílaleigubílum og fjármagnstekjuskatti af leigutekjum. Innleiða á gjaldskyldu í rútustæði í miðborginni.

Draga úr aðkeyptri ráðgjöf

Sérstök eftirfylgni verður með niðurstöðum sex mánaða uppgjörs og níu mánaða uppgjörs til að draga úr halla sem flyst milli ára, að því er segir í tilkynningunni. Borgarstjóri mun leggja fram endurskoðaða áætlun um lóða- og eignasölu þannig að fjárhagsáætlun um sölu byggingarréttar gangi eftir.

Borgarstjóri mun beina því til allra sviða borgarinnar að hægja á eða leggja af verkefni sem ekki er hægt að hagræða á móti, ekki eru farin af stað eða eru ekki tekjuskapandi. Þá verði dregið úr aðkeyptri ráðgjöf.

Vinna á gegn svartri atvinnustarfsemi og rangri skráningu fasteigna. Fjármálastjóri mun funda með fjársýslu ríkisins og ríkisskattstjóra og skila borgarráði greinargerð um málið. Þá á að sækja leiðréttingar í ríkissjóð vegna vanfjármögnunar á ýmsum málaflokkum og lögð verður fram greinargerð um lífeyrisskuldbindingar og þróun þeirra í ljósi nýgerðra kjarasamninga.