Árni Pétur Jónsson, eigandi og forstjóri Basko ehf., staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að nokkrir aðilar hafi sýnt áhuga á því að fjárfesta í félaginu. Basko er móðurfélag nokkurra félaga og má þar helst nefna 10-11, Iceland og Drangasker sem rekur Dunkin Donuts á Íslandi. Árni segir við- ræður hafa verið í gangi við einn þessara sjóða um hugsanleg kaup hans á hlutafé í félaginu, ekki sé um að ræða kaup á öllu félaginu.

Engin sala hafi hins vegar átt sér stað og því sé ekki hægt að gefa neitt upp hvað kaupverð varðar og gerir hann ráð fyrir því að það verði trúnaðarmál ef af sölunni verður. Sögusagnir höfðu verið uppi þess efnis að Árni Pétur hefði áhuga á því að fjárfesta í bílaumboðinu Heklu en hann vísar öllum slíkum tilgátum á bug.

Sjóður í eigu Landsbréfa sýnir áhuga

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að framtakssjóðurinn Horn III sé sá aðili sem hefur hug á að kaupa fyrrnefndan hlut í Basko.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.