Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir öfugsnúið að núverandi borgarstjórnarmeirihluti beri minni virðingu fyrir fornleifum heldur en ráðamenn gerðu fyrir hálfri öld. Borgarstjórnarminnihluti Sjálfstæðismanna í Reykjavík vill frestun á afgreiðslu deiliskipulagstillaga um Landsímareitinn þar til niðurstöður fornleifarannsóknar á reitnum liggja fyrir.

Jafnframt vill minnihlutinn svör við fyrirspurn frá síðasta borgarráðsfundi um hvaða lagaheimildir séu fyrir því að grafinn verði kjallari í austurhluta Víkurkirkjugarðs og stór hótelbygging reist þar ofan á. Tillaga þessa efnis sem borin var upp í borgarráði í gær var hins vegar felld með fimm atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

Steypa ofan í elsta kirkjugarð Reykvíkinga

Málið var síðan afgreitt af meirihluta ráðsins og fer nú til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar á fundi hennar 5. desember. Kjartan Magnússon, sem situr í borgarráði, segir í bókun sinni um málið að að umrætt deiliskipulag feli í sér heimild til að steypa hótelbyggingu ofan í hinn forna Víkurgarð, elsta kirkjugarð Reykvíkinga.

„Ótrúlegt er að meirihluti borgarstjórnar skuli fella tillögu um að fresta afgreiðslu tillögunnar þar til niðurstöður fornleifarannsóknar liggja fyrir og fyrirspurnum um lögfræðileg álitamál vegna eignarhalds á Víkurgarði hefur verið svarað,“ segir Kjartan meðal annars í bókun um málið.

„Víkurgarður er helgidómur í hjarta borgarinnar sem ber að vernda í stað þess að steypa stórhýsi ofan í hann. Þar stóð fyrsta kirkja Reykjavíkur og rök hníga einnig að því að  fyrir kristnitöku hafi þar verið heiðinn helgistaður. Hingað til hefur verið talið að grafir skuli vera friðhelgar eftir því sem kostur er.

Menningarþjóðir rasa ekki um ráð fram við skipulag á reitum þar sem elstu fornleifar viðkomandi höfuðborgar er að finna. Á sjöunda áratugnum var fyrirhugað að reisa viðbyggingu við Landsímahúsið, sem átti að ná út að Kirkjustræti en þegar byggingarframkvæmdir hófust kom í ljós að Víkurkirkjugarður náði lengra inn á byggingarreitinn en talið hafið verið.

Byggingaráform voru þá endurskoðuð að tilhlutan þáverandi ríkisstjórnar og Landsímanum gert að minnka viðbygginguna um helming í því skyni að hlífa sem stærstum hluta kirkjugarðsins.

Öfugsnúið er að núverandi borgarstjórnarmeirihluti beri minni virðingu fyrir grafreitum í Víkurgarði og þeim fornleifum sem þar hafa fundist en áðurnefndir ráðamenn fyrir hálfri öld.“