Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hefur skilað skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings. Skýrslan er hugsuð sem gagn vegna undirbúnings endurnýjunar á sauðfjárræktarsamningi.

Skýrslan mælir með því að hækka verð á lambakjöti um 12,5%.

„Á grundvelli greiningar er skynsamlegasta verðstefna að reyna að stuðla að verðhækkun lambakjöts í kringum 12,5%.“

Skýrslan segir að þetta verð yrði hæfilegt meðalverð sem myndi hámarka hagnað sauðfjárræktarinnar.

Óskýr ástæða ríkisstyrkja

Skýrslan segir einnig að það sé ekki skýrt af hverju Íslands styrki landbúnað sinn hlutfallslega mikið.

„Ástæður þess að Ísland styrkir sinn landbúnað hlutfallslega mikið virðast ekki skýrar, þ.e. yfirvöld hafa ekki sett þær fram með skýrum hætti. Í öllu falli er ekki hægt að vísa í samþykktir eða yfirlýsingar frá stjórnvöldum þar sem þessar grunnástæður koma skýrt fram á einum stað og hvaða markmiðum eigi að ná með stuðningnum. Hægt er þó að finna ýmis rök fyrir stuðningi með því að leita fanga víða, s.s. í lögum, reglugerðum og þingræðum.“

Greiðslur úr ríkisstjóð vegna sauðfjárframleiðslu fyrir árið 2015 voru sem nemur 4.854 milljónum króna, en 51,7% af því er vegna beingreiðslna.

Skýrslan bendir á heimildir sem segja að markmið á baki stuðningi til landbúnaðar hafi verið breytileg frá einum tíma til annars.

Heppilegasta væri að engin opinber afskipti þyrfti

Skýrslan segir einnig að heppilegast væri ef að engin opinber afskipti þyrfti að eiga sér stað gagnvart atvinnugreinum og að þær standi almennt á eigin fótum.

„Ríkisstyrkir eins og niðurgreiðslur til landbúnaðarins eru almennt talin óskilvirk leið til aðstoðar [...] þeir mynda velferðartap sem birtist í ýmsum myndum eins og t.a.m. að fjármagn leitar ekki í þá atvinnustarfsemi sem gefur mestan arð.“