Norsk stjórnvöld meta nú hvort norski olíusjóðurinn eigi að hætta fjárfestingum í olíu- og jarðgasgeiranum.

Yrði það raunin væri um högg að ræða fyrir geirann en eignir sjóðsins nema 1.000 milljörðum dala eða 103.000 milljörðum íslenskra króna að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal . Í lok árs 2016 átti sjóðurinn stóran hlut í mörgum af stærstu olíufélögum heims t.d. 0,92% í Chevron, 0,82% í Exxon Mobil, 1,65% í BP og 2,23% í Royal Dutch Shell.

Norski seðlabankinn, sem sér um fjárfestingar fyrir sjóðinn, telur skynsamlegt að hætta fjárfestingum í orkuiðnaði einkum olíuiðnaði sökum þess hvað landið er háð olíuverði og hefur lagt það til við fjármálaráðuneytið, en búist er við að lokaákvörðun verði tekin haustið 2018.