Modum Energy og sjóðir í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa í samstarfi við Arion banka gert kanadíska fyrirtækinu Alterra Power tilboð í 66,6% hlut fyrirtækisins í HS Orku. Alterra Power hét áður Magma Energy. Vonast er til að ef af kaupum verði muni þau ganga í gegn í haust. Ef af þeim verður er stefnt að skráningu HS Orku á hlutabréfamarkað á næsta ári.

Fjárfestahópurinn vinnur nú að því að fá lífeyrissjóðina til liðs við sig. Lífeyrissjóðir eiga nú þegar 33,4% hlut í HS Orku á móti Alterra Power.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að Modum Energy, sé íslenskt félag sem sérhæfi sig í vinnslu vistvænnar orku úr vatnsföllum og jarðvarma. Fyrir félaginu fara Alexander K. Guðmundsson viðskiptafræðingur og fyrrverandi forstjóri Geysis Green Energy, og Eldur Ólafsson jarðfræðingur.