Kaup FISK Seafood á þriðjungshlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, sem tilkynnt var um í byrjun vikunnar, er liður í áformum FISK Seafood, að skapa sér stöðu innan uppsjávarveiða sem Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir tiltölulega fá fyrirtæki sinna. Tækifæri hafi komið upp með skjótum hætti að kaupa hlut Útgerðarfélags Reykjavíkur og ákveðið hafi verið að stökkva á það.

gugu@fiskifréttir.is

Kaupverðið fyrir hlutinn er 9,4 milljarðar króna og verða kaupin fjármögnuð með eigin fé og lántöku. Eitt ár og sex dagar voru liðnir frá því að FISK Seafood keypti allt hlutafé í útgerðarfyrirtækinu Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði þegar tilkynnt var um kaupin á hlut Útgerðarfélags Reykjavíkur. Þau viðskipti hlutu blessun samkeppnisyfirvalda og kveðst Jón Eðvald ekki eiga von á öðru en að kaup á minnihluta í VSV fari einnig athugasemdarlaust í gegnum stjórnvaldið. FISK Seafood heldur nú utan um 5,32 kvótans í þorskígildistonnum og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum 3,75%.

„FISK Seafood hefur lengi haft áhuga á því að komast inn í uppsjávargeirann og að komast í eignarhald í fyrirtæki sem er í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski er liður í því að láta það rætast. Þannig getum við breikkað okkar grunn. Okkur finnst Vinnslustöðin líka á margan hátt spennandi fyrirtæki og sjáum ákveðin tækifæri til lengri tíma að sjávarútvegsfyrirtæki geti unnið saman á ákveðnum sviðum. Sú samvinna gæti falist í bættri nýtingu á tækjum og kvótum. Rekstur af þessu tagi snýst um það að nýta allar einingar sem best. En málið er nú ekkert lengra komið hvað þetta varðar og þetta er bara okkar þankagangur í þessum efnum,“ segir Jón Eðvald.

Hann segir ýmis tækifæri til staðar innan Vinnslustöðvarinnar. Fjárfest hafi verið á síðustu árum, m.a. í nýju uppsjávarvinnsluhúsi, frystigeymslum og nýjum togara.

„Það eru áhöld um það hvort kaup okkar í Vinnslustöðinni séu tilkynningarskyld til samkeppnisyfirvalda en við ákváðum engu að síður að tilkynna það. Kaupin á Soffaníasi Cecilssyni gengu tiltölulega hratt í gegn og þar var um að ræða að kaup á fyrirtæki í heild sinni. Við höfum reynt að halda okkur í hópi tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og ætlum að reyna að halda okkur þar. Umhverfið er með þeim hætti að mikil þörf er á að stækka einingarnar en það er vissulega einnig hægt að ná fram ákveðinni hagræðingu með aukinni samvinnu milli fyrirtækja. Mín tilfinning er sú að það kraumi margt undir í sjávarútvegnum núna og það stefni í meiri samþjöppun. Það sem ræður því er bein afleiðing af aukinni skattlagningu á sjávarútvegsfyrirtæki. Menn eiga ekkert val,“ segir Jón Eðvald.