Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð sem hefur það að markmiði að lækka byggingarkostnað vegna íbúðarhúsnæðis.

Með reglugerðinni eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis. Þannig getur lágmarksstærð íbúðar, sem er eitt herbergi, minnkað verulega.

Breytingarnar lúta einnig að því að minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi fjölgar og verða þær í stað þess tilkynningarskyldar.

Á vef ráðuneytisins segir að hafinn sé undirbúningur að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi.