Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur á facebook síðu sinni bent á tillögu borgarfulltrúa flokksins um að leyfa ræstingarfólki að borða í mötuneytum borgarinnar líkt og öðru starfsfólki í húsnæði hennar. Marta Guðjónsdóttir annar borgarfulltrúi flokksins segir fyrirkomulagið vera til skammar og með ólíkindum að meirihlutinn þurfi umhugsunarfrest því vilji sé allt sem til þurfi að laga þetta.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þess efnis var frestað en Kjartan segir ræstingafólkið hafa fasta starfstöð í húsnæði borgarinnar og vinni þar gott starf.

„Þessu starfsfólki er þó ekki heimilt að nýta sér þjónustu mötuneytanna  á þessum stöðum þar sem það er á vegum verktaka,“ segir í ályktun borgarfulltrúa flokksins um málið, og vísað til að mynda í Ráðhúsið og við Höfðatorg. „Lagt er til að í samvinnu við viðkomandi verktaka verði umræddu starfsfólki heimilað að nýta sér þjónustu mötuneytanna á sömu kjörum og borgarstarfsmenn njóta.“

Marta Guðjónsdóttir annar borgarfulltrúi flokksins segir þetta fyrirkomulag vera til skammar og það þurfi að laga. „Tillögunni var frestað í borgarráði en fróðlegt verður að sjá hvort hún verður samþykkt þegar hún verður tekin fyrir,“ segir Marta á facebook síðu Sjálfstæðismanna um borgarmálin.

„Það er með ólíkindum að meirihlutinn þurfi umhugsunarfrest milli funda um þetta augljósa mál sem ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir mönnum. Vilji er allt sem þarf til að laga þetta.“