*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Innlent 21. júní 2012 15:25

Vilja nýtt mat á virði Blikastaðalandsins

Eigendur Blikastaðalandsins deila við Arion banka um virði Blikastaðalandsins. Það er bókfært á 7,4 milljarða króna.

Ritstjórn

Eigendur félagsins Bleiksstaða, sem á Blikastaðalandið á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, vilja fá dómskvadda matsmenn til að mesta virði landsins. Kaupþing lánaði Bleiksstöðum fyrir kaupum á Blikastaðalandinu í byrjun árs 2008 og gjaldfelldi Arion banki lán þess upp á 9,8 milljarða króna rúmu ári síðar. Viðræður hafa staðið yfir um framtíð Bleiksstaða síðan á síðasta ári og hefur komið til tals að Arion banki taki það yfir. Bankinn óskaði eftir því 23. maí síðastliðinn að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Munnlegur málflutningur verður í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Bleiksstaða í matsmálinu, segist ekki reikna með að langan tíma taki fyrir dómara að úrskurða hvort matsmenn verði kvaddir til.

Bleiksstaðir er í 80% eigu Holtasels, sem er í eigu verktakafyrirtækisins Eyktar, en VBS Fjárfestingarbanki á afganginn. 

Eykt keypti Blikastaðalandið ásamt VBS Fjárfestingarbanka af ÍAV í gegnum félagið Holtasel í febrúar árið 2008 á 65 milljónir evra, rúma 6,2 milljarða á þávirði. Lánið hefur stökkbreyst síðan þá og standa 65 milljónir evra nú í 10,3 milljörðum íslenskra króna. Annað dótturfélaga Eyktar sem tengist Holtaseli var Eykt íbúðir ehf. Það félag reisti turninn við Höfðatorg. 

Staða Bleiksstaða er ekki sem best verður á kosið. Félagið tapaði tæpum 1,2 milljörðum króna árið 2010. Heildarskuldir í lok ársins námu 13,5 milljörðum króna og var bókfært eigið fé í lok ársins neikvætt um 6,1 milljarð króna. Eignir eru á móti bókfærðar á 7,4 milljarða króna og snýr nýtt mat um endurútrekning á því.

Í skýringum við ársreikninginn árið 2010 segir að þrátt fyrir gjaldfellingu á láninu þá séu stjórnendur félagsins í samráði við viðskiptabanka félagsins enn að vinna að lausnum fyrir félagið. Náist ekki samningar við lánveitendur félagsins um eftirgjöf skulda þá sé rekstrarhæfi félagsins brostið.

Gert er ráð fyrir því að á Bliksstaðalandinu rísi svokallaðar athafnalóðir ásamt íbúðabyggð með 1.800 íbúðum, bæði blandaðri byggð einbýlishúsa, sérbýla og fjölbýla. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim