Facebook inc. reynir nú að finna leiðir til þess að tekjuvæða notkun fyrirtækja. Tæknifyrirtækið hefur því gefið út vöru, sem kallast Workplace, en markmiðið er að færa samskipti vinnuveitenda og starfsmanna á einn stað.

Fyrirtækið mun rukka 3 Bandaríkjadali fyrir hvern starfsmann upp að 1.000 starfsmönnum. Eftir það munu vinnuveitendur vera rukkaðir um 2 dali upp að 10.000 notendum og 1 dollar eftir það.

Varan á að skapa ný sóknarfæri fyrir Facebook og skapa nýja möguleika til tekjuöflunar. Nú þegar eru nokkrar sambærilegar vörur á markaði, þar með talið vörur frá Microsoft, Salesforce og Slack.

Facebook hefur nú þegar náð stórum viðskiptavinum yfir á sitt band, en um 1.000 fyrirtæki hafa byrjað að nota Workplace. Meðal þessara fyrirtækja eru Oxfam, Booking.com og Starbucks.