Lagt er til að tveir Íslendingar, þeir Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögfræðistofunnar Logos, og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í slitastjórn Kaupþings, taki sæti í stjórn Kaupþings þegar nauðasamningur slitabúsins hefur verið samþykktur.

Í frétt Morgunblaðsins segir að þetta komi fram í tillögu sem borin verður undir kröfuhafa Kaupþings og unnin hefur verið af lykilaðilum í hópi þeirra.

Eignir slitabús Kaupþings nema í dag í kringum 840 milljörðum króna. Af því eru um 410 milljarðar í lausafé og gera má ráð fyrir að stærstur hluti þess verði greiddur til kröfuhafa í tengslum við nauðasamning.

Því má gera ráð fyrir að eignir félagsins að loknum nauðasamningi muni nema á bilinu 400-450 milljörðum króna. Verðmætasta eign félagsins verður 87% hlutur þess í Arion banka.