*

laugardagur, 17. nóvember 2018
Innlent 28. mars 2014 18:09

Vilja rúmlega 40% launahækkun

Meðallaun bátsmanna á Herjólfi er um 400 þúsund krónur.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Litlu skiptir að beina spjótum gegn Eimskipi, rekstraraðila Herjólfs, vegna kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins (SA) við Sjómannafélag Íslands vegna undirmanna á Herjólfi. Í tilkynningu frá SA segir að í Vestmannaeyjum sé seinaganginum í kjaraviðræðunum mótmælt. SA fari með samningsumboð eins og annarra aðildarfyrirtækja. Nú eins og í öðrum tilvikum sé hafnað þeim óbilgjörnu kröfum sem Sjómannafélagið hefur lagt fram og sagt ófrávíkjanlegar. 

Í tilkynningu SA segir að Sjómannafélagið setti þegar í upphafi viðræðna fram kröfu um rúmlega 40% hækkun launa og hafi ekki verið slegið af þeirri kröfu. Auk þess skyldu laun hækka árið 2014 með sama hætti og laun farmanna.

Meðallaun bátsmanna á Herjólfi eru nú um 400 þúsund krónur á mánuði miðað við 46 klukkustunda vinnuviku sem byggir á vaktavinnu. Kröfur Sjómannafélagsins jafngilda því að föst laun bátsmanna hækki að lágmarki um 160 þúsund krónur á mánuði. Samtök atvinnulífsins geta ekki og munu ekki fallast á slíkar kröfur, að sögn SA.