Viðskiptaráð Íslands leggur til að gefin verði út léttleyfi fyrir leigubílaakstur á Íslandi, sem svipi til skammtímaleyfa sem gefin hafa verið út fyrir heimagistingu. Léttleyfakerfið verði til staðar samhliða hefðbundnum leigubílaakstri. Í umsögn Viðskiptaráðs, sem birt var í gær á samráðsgátt Stjórnarráðsins vegna fyrirhugaðs frumvarps um breytingar á lögum um leigubíla, er bent á að þegar séu 42 þúsund manns í Facebook-hópnum Skutlarar! Þar bjóði einstaklingar fram akstur gegn greiðslu án þess að hafa tilskilin leyfi.

„Því má leiða líkur að því að umtalsverð og ókortlögð svört atvinnustarfsemi sé á sviði farþegaflutninga með tilheyrandi skatttekjumissi fyrir ríkissjóð og erfiðari stöðu þeirra sem fara að lögum og reglum,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs. Ríkisstjórnin stefnir á að leggja fram frumvarp þar sem gerðar verða breytingar á leigubílalöggjöfinni haustið 2019.

„Fjöldatakmarkanir á leigubílaleyfum eru eins og orðið gefur til kynna aðgangshindranir sem draga úr framboði á þjónustunni og er því beinlínis ætlað að draga úr samkeppni. Engin gögn hafa sýnt fram á að leigubílstjórum vegni betur þegar þær eru til staðar en erlendar rannsóknir hafa sýnt að þær leiði af sér hærra verð og minni þjónustu við neytendur,“ segir Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .