Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunnar tengist með beinum hætti árangurslausum tilraunum Símans til þess að semja um aðgang að innviðakerfi Gagnaveitu Reykjavíkur (GR).

„Í rauninni snýst þetta mál um það að við höfum árangurslaust reynt að semja um að kaupa aðgang inn á net GR í mörg ár, þ.e. að fá sama opna aðgang að ljósheimtaugum GR eins og býðst á öðrum kerfum í landinu. Eini staðurinn sem okkar ólínulega efni hefur ekki náð til er net GR, en GR er eini aðilinn sem hindrar opið aðgengi að innviðum sínum. Reykjavíkurborg í gegnum Orkuveituna er búin að fjárfesta fyrir 30 milljarða að núvirði í þessu kerfi. Þessi starfsemi hefur aldrei skilað jákvæðu fjárflæði innan árs og er því hrein opinber niðurgreiðsla á samkeppnismarkaði. PFS hefur daufheyrst við óskum okkar um að þeir beiti sér fyrir því að opnað verði fyrir aðgang á viðskiptalegum forsendum að innviðunum sjálfum. Til að bíta höfuðið af skömminni þá úrskurðar PFS nú, að við séum brotleg fyrir að vera ekki inni á kerfi GR, en taldi þess utan með stórfurðulegum hætti að brotið hefði verið verra ef Síminn og GR hefðu samið sín á milli um aðgang að kerfi GR.

Núna fyrir um það bil tveimur vikum kynntum við til leiks nýja lausn sem hægt er að nota yfir öll net. Allt okkar sjónvarpsefni er því fáanlegt í gegnum þessa lausn, svo lengi sem einhver internet tenging sé til staðar. Fyrir vikið er sá skortur á aðgengi sem olli PFS þessu hugarangri og er að baki úrskurði stofnunarinnar úr sögunni.

Míla er félag sem var stofnað hér innan samstæðunnar árið 2006. Eftir að við gerðum sátt við Samkeppniseftirlitið fyrir nokkrum árum varð Míla sjálfstæðari eining en fyrr. Við megum til dæmis ekki vera í stjórn Mílu þó svo að Síminn sé eini eigandi félagsins. Míla á að veita sömu þjónustu til allra, hvort sem það er Síminn, sem er mjög stór kúnni, eða aðrir með minni viðskipti. Það var meðal annars gerð utanaðkomandi þjónustukönnun þar sem kom í ljós að Míla er fljótari að sinna öðrum viðskiptavinum heldur en Símanum, þannig að það er engin mismunun í gangi gagnvart öðrum aðilum á fjarskiptamarkaði, fremur hallar á Símann ef eitthvað er.

Míla er reglustýrt heildsölufyrirtæki sem er hluti af skráðri samstæðu á hlutabréfamarkaði. Míla selur Símanum og öllum sem þess óska aðgang að sínum innviðum í heildsölu á verði sem PFS ákveður. GR er í eigu skattgreiðenda án þess að PFS veiti þessu borgarfyrirtæki raunverulegt aðhald. Það eru viss svæði þar sem GR er búið að leggja ljósleiðara inn í hús þar sem Míla á mjög litla innviði. Því  er svo grátlegt að þurfa að fara í að grafa allt upp aftur - í stað þess að nýta féð til að fjárfesta þar sem þörfin er meiri. Víða á höfuðborgarsvæðinu eru stór hús sem þyrfti að grafa upp garðana hjá - auk gatnanna og gangstéttanna sjálfra - til þess að koma þessum innviðum fyrir. Sóunin við þessa endurtekningu hleypur á milljörðum. Það væri því mun auðveldara ef við fengjum að kaupa aðgang á viðskiptalegum forsendum að hráum ljósleiðurum þar sem þeir eru, rétt eins og tíðkast í öðrum landshlutum og mörgum öðrum löndum. GR vill hins vegar ekki veita okkar aðgang, sem okkur þykir mjög skrýtið þar sem þeir myndu auka við tekjur sínar með því og sömuleiðis ná nánast 100% nýtingu á net sitt. Við myndum gjarnan vilja selja okkar þjónustu yfir ljósleiðara GR alveg eins og við gerum yfir ljósleiðara margra annarra um landið."

Myndast gjá milli höfuðborgarsvæðis og annarra landshluta

„Núna er fjárfestingakapphlaup í gangi hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem GR starfar. Sem betur fer eru GR og Míla að vinna saman í nýjum verkefnum þar sem verið er að leggja ljósleiðara að gömlum húsum þar sem ekki höfðu verið lagðir slíkir innviðir að áður. Aðilarnir skipta því mesta kostnaðinum á milli sín, sem er gröfturinn.

Þetta verður þó til þess að önnur svæði fá miklu minna og landið er að sporðreisast. Sífellt stækkandi gjá er að myndast á milli suðvesturhornsins og margra annarra staða, vegna þess að það er verið að ýta Mílu út í það að leggja annan ljósleiðara inn í hús á suðvesturhorninu sem eru þegar með ljósleiðara frá GR. PFS lætur sér fátt um finnast. Á meðan eru ýmis svæði úti á landi sem eru með mun verri tengingar sem fá ekki sömu athygli. Gjáin mun svo verða ennþá stærri þegar við förum yfir í næsta fasa í nettengingu farsíma, sem er 5G, þar sem 5G þarfnast enn meiri ljósleiðarainnviða en til dæmis 4G. Það eru þó enn einhver ár í að fjárfest verði svo nokkru nemi í 5G þótt undirbúningur sé hafinn, en þær ákvarðanir sem eru teknar núna skipta þó sköpum um hversu vel við erum í stakk búin fyrir þessa miklu breytingu þegar að henni kemur, segir Orri.

Eiga margt eftir ólært

Fjarskiptafyrirtæki eins og Síminn starfa á markaði sem er í sífelldri þróun og tækni gærdagsins getur verið ansi fljót að úreldast. Spurður hvernig hann sjái fyrir sér umhverfi fjarskiptafyrirtækja þróast á næstu árum segir Orri að mikilvægt sé að horfa til alþjóðlegra fyrirtækja á markaðnum, til þess að læra af því sem þau gera vel og einnig það sem mistekst hjá þeim.

„Við berum okkur mikið saman við erlenda aðila og erum í miklu samstarfi við Telefonica-samstæðuna sem er alþjóðlegt fjarskiptafyrirtæki með starfsemi víða um heim. Þeir eru með stóran „þróunarvöðva" og hafa séð hvað gengur upp og hvað ekki. Fyrir litla aðila, eins og við erum í stóra samhenginu, er mjög dýrt að gera afdrifarík mistök.

Við reynum því að horfa til fyrirmynda erlendis. Ég sé fram á að það verði mikil innri þróun í fjarskiptafélögum á næstu árum og hún er þegar hafin. Það þarf að einfalda alla ferla, við vorum til dæmis með fimmtán framkvæmdastjóra fyrir fjórum árum en erum með sex núna. Þó að við séum að selja stafrænar lausnir er ennþá mikil einföldun eftir hjá fjarskiptafyrirtækjum. Það eru of mörg kerfi í gangi og of lítil sjálfvirkni þannig að fólk geti afgreitt sig sjálft. Það eru mjög margir aðilar farnir að veita viðskiptavinum sínum einfalda stjórn yfir eigin þjónustu, eins og til dæmis Netflix og Google, sem þurfa ekki að fjárfesta í hráinnviðunum en eru í mjög nánum samskiptum við viðskiptavinina. Þessir aðilar eru einnig mjög góðir í að greina upplýsingar um viðskiptavini sína og reyna að sjá fyrir framtíðarþarfir. Á því sviði eigum við mikið eftir ólært, við erum byrjuð að læra en eigum enn eftir að gera mikið, þó þannig að verndun persónuupplýsinga sé ávallt tryggð. Við viljum skilja viðskiptavinina betur, einfalda líf þeirra í flóknum heimi og klæðskerasauma betur utan um þeirra óskir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .