Katrín Jakobsdóttir, verðandi forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi flokkanna þriggja sem hófst klukkan tíu að mikilvægt væri að halda efnahagslegum stöðuleika en að lykilatriði í því væri að halda vel utan um vinnumarkaðsmál.

Hún sagði leiðarljós flokkanna þriggja hafa frá upphafi verið að taka saman höndum um ýmis verkefni og skapa sem breiðasta sátt, meðal annars um mál sem hefði verið deilt um.

Bjarni Benediktsson, verðandi fjármálaráðherra, bætti því við að niðurstaða stjórnarsáttmálans endurspeglaði að hér væri þjóð sem væri í miklum sóknarham og að þeir sem að sáttmálanum stæðu hefðu mikla trú á að hægt væri að gera vel á næstu árum.

Bjarni sagði flokkana jafnframt hafa ákveðið að leggja ekki áherslu á þau mál sem sérstaklega aðgreini hvern flokk fyrir sig frá öðrum flokkum heldur leggja frekar áherslu á þau mál raunveruleg samstaða er um.

Þá sagði Sigurður Ingi að land og þjóð væri á góðum stað og mikil tækifæri væru á innviðauppbyggingu. Þá sagði hann að markviss skref yrði unnin í átt að afnámi verðtryggingar á þessu kjörtímabili.

Framtíðarnefnd á Alþingi

Katrín sagði ennfremur að myndun þessarar ríkisstjórnar snérist ekki aðeins um framkvæmdavaldið heldur endurspeglaði einnig einlægan vilja til að efla hlutverk Alþingis og horfa til lengri tíma. Stefnan væri að á Alþingi yrði skipuð nefnd, einskonar framtíðarnefnd, til þess að móta langtímasýn meðal annars til þess að mæta áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar.