Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vill að tekinn verði upp auðlegðarskattur að nýju með það að markmiði að treysta efnahagslegan stöðugleika og félagslega velferð. Þetta kemur fram í grein sem birt var á heimasíðu sambandsins í gær.

Í greininni segir að sú forgangsröðun sem birtist í tillögu fjármálaráðherra til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021 valdi verulegum vonbrigðum.

Sambandið telur að áætlunin beri um of merki um uppgang efnahagslífsins. Gert sé ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði jákvæð allt tímabilið en eitt megin markmið áætlunarinnar er að afkoma hins opinbera verði jákvæð um a.m.k. 1% af landsframleiðslu. Í greininni segir að áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi slaka samhliða vaxandi spennu í hagkerfinu og uppgangi á vinnumarkaði sem mun ýta undir ofþenslu og óstöðugleika og vinna gegn peningamálastefnunni. Það mun auka verðbólguþrýsting og hækka vexti.

Ljóst sé að sú stefna sem sett sé fram viðhaldi þeirri vegferð sem stjórnvöld hafa verið á við að auka misskiptingu og veikja innviði velferðarsamfélagsins

ASÍ leggur því að skattkerfisbreytingar verði endurskoðaðar svo unnt sér að sporna við þeirri þróun. Þannig leggur sambandið m.a. til að tekinn verði að nýju upp auðlegðarskattur, veiðigjöld verði hækkuð og lagður verði alvöru hátekjuskattur á ofurlaun.