„Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa einir að byggingum á Laugardalsvelli, höfum nóg með okkar rekstur. Forsendan fyrir nýrri og stærri knattspyrnuvelli er að hlaupabrautin fari, og um það hefur náðst samkomulag við frjálsíþróttahreyfinguna,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að KSÍ hafi til skoðunar útfærslur á nýjum þjóðarleikvangi í Laugardal sem gerir ráð fyrir upphituðum grasvelli og yfirbyggðum stúkum sem tækju að minnsta kosti 15 þúsund manns í sæti. Að sögn Geirs liggur fyrir styrkur frá UEFA sem ætlaður er til að skipta um gras og gera völlinn upphitaðan. „Þetta teljum við okkur ráða við og viljum að byrjað verði á þessu að ári, þegar Smáþjóðaleikunum er lokið og undankeppni EM.“

Geir segir jafnframt að fjármögnun svona framkvæmda geti ekki orðið að veruleika nema með aðkomu áhugasamra fjárfesta. Eignarhaldið yrði hjá borginni, sem fengi auknar tekjur af byggingamagninu, en gerði afnotasamning til langs tíma við rekstraraðilana.