Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson, Elsa Lára Árnadóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að innanríkisráðherra „láta kanna kosti þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll og Akureyrarflugvöll." Þingmennirnir eru allir úr norðvesturkjördæmi, þar sem flugvöllurinn er staðsettur.

Meðal rökstuðnings fyrir tillögu sinni tiltaka þingmennirnir að öryggi flugsamgangna sé ekki nægjanlega tryggt með þeim flugvöllum sem nú séu starfræktir um landið. Eldfjallahætta á suðvesturhorni landsins skipti þar til dæmis máli.

„Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja búa við það að í næsta nágrenni eru virk eldfjallasvæði eins og Bláfjöll og Krísuvík. Land er að rísa í Krísuvík og jarðskjálftar tíðir á þeim slóðum sem kallar enn og aftur á vangaveltur um stöðu samgangna til og frá höfuðborgarsvæðinu sem og til og frá landinu. Það kann því að vera mikilvægur öryggisþáttur fyrir landsmenn og gesti landsins að öryggi þeirra til samgangna sé tryggt enn frekar," segir í tillögunni."

Í tillögunni er einnig tiltekið að þjóðvegur 1 hafi lokast í einn dag á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur að meðaltali á ári, en ekki er tiltekið yfir hvaða tímabil. Til samanburðar hafi þjóðvegurinn lokast í tvo daga á meðaltali á milli Egilsstaða og Reykjavíkur.