„Það er fáránlegt að segja að íslenska hagkerfið sé að kólna. Við erum að tala um að fara úr 7,2% hagvexti í 5,2% hagvöxt. Það er tvöfalt til þrefalt meiri hagvöxtur en er í okkar viðskiptalöndum. Það er ekki eins og það sé að kólna í þeim skilningi að það sé að fara að verða kalt. Það verður bara aðeins minna heitt. Og það er gott.“

Þetta sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, í fyrirlestri hjá Félagi atvinnurekenda síðastlið­inn þriðjudag. Erindi hans fjallaði um ástand og horfur í efnahagsmálum hér á landi, auk peningastefnuna.

Þórarinn telur stöðu þjóð­arbúsins einstaklega góða og í raun fordæmislausa. Hagvöxtur er mikill og atvinnuleysi nánast ekkert. Grundvöllur efnahagsbata undanfarinna ára sé mun traustari en fyrri uppsveifla vegna viðskiptakjarabata, vaxtar ferðaþjónustu og jákvæðrar ytri stöðu. Hann hefur ekki áhyggjur af því að hagvöxtur fari minnkandi. Þvert á móti sé það fagnaðarefni að útlit sé fyrir að hagkerfið muni leita í jafnvægi á næstu árum sem samræmist hagvaxtargetu til lengri tíma litið. Þá hafi trúverðugleiki peningastefnunnar aukist, sem knúið hefur fram stöðugri verðbólgu og verðbólguhorfur og minni hagsveiflur undanfarin ár.

Viljum ekki vaxtastig nágrannalandanna

Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og spennu í þjóðarbúinu hefur verð­bólga verið við eða undir 2,5% verð­bólgumarkmiði Seðlabankans í tæplega fjögur ár. Þá hefur kjölfesta verðbólguvæntinga styrkst við markmiðið, auk þess sem óvissa um verðbólguhorfur hefur minnkað. Þórarinn telur aukinn stöðugleika í verðbólgu og verð­bólguvæntingum vera til marks um að trúverðugleiki peningastefnunnar hafi aukist.

Einnig hefur dregið úr sveiflum ýmissa hagstærða á Íslandi undanfarin ár, svo sem í einkaneyslu, þjóðarútgjöldum, landsframleiðslu og atvinnuleysi. Þórarinn tengir minnkandi hagsveiflur við minni sveiflur í raunvöxtum – nafnvöxtum að frádreginni verðbólgu – sem hann tengir aftur á móti við bættan árangur við stjórn verðbólgu. „Þetta finnst mér vera meginástæðan fyrir því að hér hafi gengið illa og að það sé að ganga betur núna,“ sagði Þórarinn.

Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti tvisvar á þessu ári og eru þeir nú 4,5%. Þórarinn sagði samhengi stýrivaxtaákvarðana bankans skýrt: bankinn hækkar vexti þegar verðbólguvæntingar hækka og lækkar vexti þegar verðbólguvæntingar lækka. Varðandi vaxtamuninn við útlönd sagði Þórarinn vexti á Íslandi hærri en í öðrum vestrænum ríkjum vegna mismunandi efnahagsaðstæðna.

„Við viljum ekki fara í vextina sem eru í nágrannalöndum okkar. Þeir eru í kringum 0% og jafnvel neikvæðir sum staðar. Af hverju ætli það sé? Það er ekki vegna þess að það gangi svona vel hjá þeim, heldur þvert á móti eru þessi hagkerfi í alvarlegri efnahagslægð. Hér er 7% hagvöxtur en í hinum löndunum er hann á bilinu 1-2% […] Við erum komin út úr þessari lægð, en ekki þeir,“ segir Þórarinn. „Það endurspeglast í vaxtamun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .