Gerd Muller, þróunarmálaráðherra Þýskalands, segir að Sameinuðu Þjóðirnar ættu að koma á fót 10 milljarða evra krísusjóði þar sem hvert land leggur sitt af mörkum eftir fjárhagslegum styrkleika. Vísar hann í mikla hungursneyð í austur Afríku máli sínum til stuðnings.

Í viðtali við þýska dagblaðið Passauer Neue Presse á laugardag sagði Muller að hörmungarnar væru þegar byrjaðar að dynja yfir. Benti hann á aðstæður í löndum á borð við Kenía, Sómalíu, Suður Súdan og Eþíópíu. Sagði Muller að Sameinuðu Þjóðirnar teldu þörf á að minnsta kosti fjórum til fimm milljörðum Bandaríkjadala til að aðstoða þessi lönd. Nú vill hann búa til stærri sjóð sem bætt væri á eftir þörfum.

,,Við þurfum að gera þetta sem eitt alheimssamfélag," sagði hann. Til að mynda séu matarbirgðir fyrir 7,8 milljónir íbúa í Eþíópíu að þrotum komnar, en þetta fólk hefur orðið fyrir barðinu á miklum þurrkum. Að sögn Sameinuðu Þjóðanna eru 20 manns í lífshættu vegna þurrka og stríðsátaka í Jemen, Sómalíu, Suður Súdan og norðaustur Nígeríu og aðrar 100 milljónir eru vannærðar út um allan heim.