Síld og fiskur ehf. hefur farið þess á leit við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann sjái til þess að yfirdýralæknir eða sjálfstætt starfandi dýralæknir verði fenginn til starfa sem kjötskoðunarlæknir við slátrun grísa hjá fyrirtækinu núna í vikunni til að koma í veg fyrir að „kjöt sem nemur 125.000 máltíðum verði urðað í tilgangsleysi“, eins og það er orðað í erindinu. Kemur þetta fram í tilkynningu sem send var út á vegum fyrirtækisins í dag.

Bréf þessa efnis voru send Sigurði Inga Jóhannssyni í gær og Eygló Harðardóttur í dag. Sigurður er staddur erlendis og Eygló gegnir embætti sjávarútvegs- og landbúnarráðherra á meðan.

Í bréfinu segir ennfremur að í heimsókn dýralækna Matvælastofnunar á föstudaginn hafi komið fram að ef dýrum yrði ekki fækkað á búum fyrirtækisins snemma í þessari viku nætti eiga von á þvingunaraðgerðum frá stofnuninni á grundvelli laga um dýravelferð.

„Matvælastofnun og dýralæknar hennar koma sum sé í veg fyrir að við getum slátrað úr búunum okkar með eðlilegum hætti en sömu aðilar ætla jafnframt að beita okkur viðurlögum fyrir að slátra ekki úr búunum okkar! Er þetta stjórnsýsla til fyrirmyndar?“ segir í bréfinu.

Þar segir einnig að að óbreyttu muni undanþágunefnd Dýralæknafélags Íslands hafna beiðni um að kalla dýralækna Matvælastofnunar úr verkfalli til kjötskoðunar við slátrun grísa frá búum Síldar og fisks ehf. á morgun, þriðjudag. „Þá eru okkur engin önnur ráð tæk en að hefja fjöldaaftökur á grísum til að tryggja dýravelferð. Við munum þá aflífa allt að 500 grísi í vikunni og urða. Þessir grísir gætu orðið uppistaða í 125.000 máltíðum en í staðinn enda þeir engum til gagns í fjöldagröfum á urðunarstöð Sorpu,“ segir í bréfinu.