Afskrifa verður snjóhengjuna alla, þar á meðal erlent skuldabréf Landsbankans. Ekki dugir að færa það niður um 75% til að bæta erlenda stöðu þjóðarbúsins. Þetta kemur fram í bréfi Lilju Mósesdóttur til Helga Hjörvars, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Lilja, sem situr utan flokka á þingi, á sæti í nefndinni. Hún vill að Már Guðmundsson seðlabankastjóri verði kallaður á fund nefndarinnar til að ræða nauðsyn afskriftarinnar í ljósi upplýsinga sem fram koma í nýrri skýrslu bankans um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins.

Í bréfinu segir:

„Þjóðarbúið getur ekki að óbreyttu aflað útflutningstekna til að leyfa útstreymi snjóhengjunnar. Snjóhengjuna verður að skrifa alla niður en hún samanstendur af aflandskrónum, krónukröfum erlendra aðila í þrotabú gömlu bankanna, eignarhlutum kröfuhafa í nýju bönkunum og erlenda skuldabréfi Landsbankans til gamla Landsbankans. Um 75% niðurskrift til að undanskilja erlenda skuldabréf Landsbankans mun ekki duga til.“