Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram lagafrumvarp um aukinn aðgang almennings að upplýsingum í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann frumvarpið meðal annars snúast um að upplýsingar um ársreikninga og ábyrgðarmenn fyrirtækja verði aðgengilegar í auknum mæli. Eins og stendur sé hægt að kaupa upplýsingarnar, en kostnaðurinn hafi stundum staðið fréttaumfjöllun í vegi.

„Í rauninni snýst þetta bara um það að bæta þeim upplýsingum við þá leit sem er nú þegar,“ segir Björn Leví. Hann segist hafa fengið góð viðbrögð þegar hann hefur rætt málið við fyrirtæki.

Meðflutningsmenn frumvarpsins eru Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata, ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar.