Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að fátt gæti betur tryggt Íslendingum samkeppnishæft matvælaverð en aukin samkeppni í landbúnaði. Hann segir það löngu tímabært að horfast í augu við þann mikla kostnað sem samkeppnisvernd á landbúnað veldur íslenskum neytendum. Þetta segir Þorsteinn í pistli á Facebooksíðu sinni frá því í gærkvöldi.

Í pistlinum gerir ráðherrann áhrif af innkomu Costco á íslenskan smásölumarkað að umtalsefni sínu og telur innkomu fyrirtækisins sýna hversu mikilvæg öflug og góð samkeppni er fyrir lífsskilyrði okkar. Nefnir hann að áhrif fyrirtækisins gætir víða, hvort sem horft sé til heimilistækja, hjólbarða, fatnaðar, eldsneytis eða matvæla.

„Erlend samkeppni veitir innlendum aðilum nauðsynlegt aðhald, lækkar vöruverð fyrir okkur öll og tryggir meira vöruúrval en ella. Við eigum sífellt að leitast við að tryggja sem mesta samkeppni til að tryggja sem lægst vöruverð og mestan kaupmátt. Um það eru flestir landsmenn vafalítið sammála. Við viljum að lífskjör hér á landi standist samanburð við nágrannalönd okkar á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem horft er til launa, vaxtakostnaðar eða vöruverðs," skrifar Þorsteinn

Í kjölfarið beinir hann sjónum að þeim mörkuðum sem enn búa við ríka vernd frá samkeppni og því háa verði sem íslenskir neytendur greiði fyrir þá vernd. Vísar hann í mynd sem fylgir með pistlinum þar sýndur er grófur samanburður á kostnaði matarkörfunnar eftir löndum. Á myndinni hefur matvöru verið skipt í tvo flokka, innlenda matvörur sem nýtur ríkrar innflutningsverndar, (mjólk, kjöt og ostar) og aðra matvöru sem nýtur lítillar eða engrar verndar (innlend og erlend).

Á myndinni sést að kostnaður matarkörfunnar hér á landi er mun hærri en í samanburðarlöndunum. „Hár kostnaður þeirra matvæla sem njóta ríkrar verndar skýrir stærstan hluta þess munar. Það er hins vegar mun minni verðmunur er á milli landa þegar kemur að þeim vörum sem búa við lítt eða óhefta samkeppni. Það sýnir ótvírætt kosti samkeppninnar, ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður í samanburðarlöndunum."

Hér má lesa færsluna í heild sinni.