Þetta sagði Sigríður Andersen í opnunarávarpi sínu á ráðstefnu um alþjóðlegan gerðadómsrétt í vikunni. Morgunblaðið greinir frá en þar er haft eftir ráðherranum að ábendingar um þetta hafi borist dómsmálaráðuneytinu og að hún sé áhugasöm um að skoða þær frekar og hefja vinnu á endurskoðun á lögum um samningsbundna gerðardóma.

Ekki er algengt að leyst sé úr ágreiningsmálum í viðskiptum á Íslandi fyrir gerðadómi, en áætlað er að um 80% af öllum alþjóðlegum viðskiptasamningum geri ráð fyrir úrlausn ágreiningsmála fyrir gerðardómi. Sigríður segir langa hefð fyrir gerðardómum á Íslandi, en að sú hefð sé ekki rík.

Héraðsdómslögmaðurinn Garðar Víðir Gunnarsson, sem var einn skipuleggjenda ráðstefnunnar, sagði að lagaumgjörð um gerðarmeðferð á Íslandi hafi staðið í vegi fyrir því að Ísland sé álitlegur valkostur þegar að því kemur að ákveða hvar sæti alþjóðlegrar gerðarmeðferðar skuli vera.