Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, lagði á dögunum fram frumvarp á Alþingi þess efnis að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan allan þann virðisaukaskatt sem greiddur er vegna viðhalds, nýbygginga eða endurbygginga íþróttamannvirkja. Jafnframt verði þjónusta, vörusala og fjáraflanir íþrótta- og æskulýðsfélaga undanskilin virðisaukaskatti.

Willum lagði málið fram á síðasta þingi en það komst aldrei lengra en til fyrstu umræðu. Skylt mál var einnig lagt fram á vorþingi 2014. Meðflutningsmenn Willums að frumvarpinu eru þau Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason. Síðastnefndi þingmaðurinn bætist í hóp meðflutningsmanna frumvarpsins frá því á síðasta þingi.

Íþróttir hafi góð áhrif á ungmenni

„Vart þarf að fjölyrða um þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar og annarrar æskulýðsstarfsemi,“ sagði Willum í flutningsræðu sinni. „Fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnargildi íþrótta og þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á hvers konar frávikshegðun. Ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru til að mynda líklegri til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Þá hafa rannsóknir jafnframt sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur meðal annars jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan.“

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, þakkaði Willum í þingsal fyrir að setja málið á dagskrá. „Þeir sem stunda íþróttir eða eru í æskulýðsstarfi, mjög margir, eru oft vel skipulagðir einstaklingar með góðan námsárangur og það helst allt í hendur. Það er líka hægt að horfa til þess að nú er þjóðin að eldast, eldri borgarar eru ört stækkandi hópur í samfélaginu og þá hlýtur þörfin að vera meiri fyrir uppbyggingu mannvirkja fyrir íþróttir eða æskulýðsstarf,“ sagði Elsa.

Willum er fyrrum knattspyrnuleikmaður og þjálfari. Hann spilaði með KR, Breiðabliki og Þrótti og þjálfaði meðal annars KR, Val og Keflavík.