Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar,  tilkynnti nýlega að hann hyggst stytta vinnudaginn um tvær klukkustundir og binda þannig endi á svokallaða síestu sem tíðkast hefur þar í landi. Vill hann með þessu koma daglegu lífi Spánverja í meira samræmi við það sem gengur og gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum.

Starfsfólk á Spáni vinnur alla jafna til klukkan tvö, áður en það tekur sér síestuna í einn til þrjá klukkutíma. Vinnudegi þeirra lýkur því oftast um klukkan átta en ráðherrann vill að vinnudeginum ljúki fyrr eða um klukkan sex. Þá auki það fyrirkomulag jafnframt lífsgæði fólks og auðveldi fjölskyldulíf.

Rajoy hyggst beita sér fyrir þessu máli fyrir kosningarnar á Spáni í sumar.

Síesta á rætur sínar að rekja til þess þegar meirihluti spánverja starfaði utandyra við landbúnaðarstörf og sá siður skapaðist að fólk leitaði skjóls undan hitanum sem er mestur um miðjann daginn.