*

mánudagur, 28. maí 2018
Innlent 21. apríl 2017 15:26

Vill gera gögnin aðgengileg fyrir almenning

Fjármálaráðherra telur mikilvægt að hafa opinber gögn um starfsemi og eignarhald fyrirtækja þar sem að almenningur geti nálgast þau án endurgjalds.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill að ríkisskattstjóri undirbúi það að setja öll opinber gögn um starfsemi og eignarhald fyrirtækja á veraldarvefinn, þar sem að hinn almenni borgari geti nálgast þau án endurgjalds. Frá þessu er greint í frétt Ríkisútvarpsins. 

Hann segist vera alveg eindregið þeirrar skoðunar að gögnin eigi að vera ókeypis. „Ég held að það eigi að vera mjög opið hverjir eiga fyrirtæki. Ársreikningar eiga að vera opnir, og ég tel það eigi að ganga jafnvel lengra, þannig að ef það eru fyrirtæki sem eiga fyrirtæki þá eigi menn að vita hverjir standa á bak við, hvar eru einstaklingarnir sem endanlega standa á bak við. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt fyrir opna umræðu um atvinnulífið,“ er haft eftir fjármálaráðherranum í frétt RÚV. 

Benedikt segir að næstu skref séu að ríkisskattstjóri hefji undirbúning við að gera gögnin aðgengilegt. Hann telur að með þessum skrefum sé hægt að draga úr tortryggni í garð viðskiptalífsins.