Eyjólfur Pálsson, kaupmaður í Epal, segir upplagt að kenna börnum mikilvægi hönnunar strax í grunnskóla. „Grunnskólakennarar hafa tekið upp á því að láta nemendur taka einfalda, þekkta hönnun og strika hana út og saga eftir henni. Mér finnst þeir eigi ekki að gera þetta. Ég sagði við Hönnunarmiðstöð að við ættum að láta hanna fimm eða sex hluti fyrir grunnskólanemendur og gefa þeim. Þá mega þeir smíða það með fullu leyfi og bera þá strax virðingu fyrir hönnun því þetta væri hannað fyrir þá og aðrir mættu ekki taka þetta upp og framleiða. Þá segja allir að það þurfi peninga í þetta. Finnum bara fimm eða sex fyrirtæki til að fjármagna laun til hönnuða við að gera þetta. Við borgum einum og ég skal finna hina,“ segir Eyjólfur.

„Það hefur verið tekið vel í þetta en það er með þetta eins og annað að það vantar að klára þetta. Þetta kemur því ég á nógan tíma eftir,“ segir Eyjólfur. „Ég ætla að verða 100 ára.“

Hefur hitt alla konungsfjölskylduna

Eyjólfur segir Epal vera undir sterkum dönskum áhrifum. „Ég fékk medalíu frá Hinriki prins á sínum tíma og 2001 æðstu verðlaun í húsgagnaiðnaði í Danmörku, Møbelprisen, sem voru afhent af krónprinsinum. Fyrir tveimur árum var dansk-íslenska félagið 100 ára og þá komu Jóakim prins og frú til landsins. Við vorum beðin um að setja upp sýningu með íslenskri hönnun hérna og fengum þau í heimsókn. Þá átti ég bara eftir að hitta drottninguna. Í fyrra var Guðni forseti boðinn til Kaupmannahafnar. Ég var með í för og var einn af sex sem fengu leyfi til að eiga smá spjall við drottninguna. Þannig að ég hef hitt alla fjölskylduna í eigin persónu. Það er gaman að þessu því ég er talinn svo danskur,“ segir Eyjólfur og brosir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .