Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, sagði á landsþingi Sambands íslenska sveitarfélaga, vilja sjá innbyggða hvata í tekjustofnakerfi sveitarfélaga til frekari sameininga.

Jafnframt að reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hjálpi sveitarfélögum sem vilja sameinast. Á þinginu ræddi hann einnig um uppbyggingu flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli og framtíð vallarins ásamt breytingum á tekjum og kostnaði sveitarfélaga.

„Mín hugsun er sú að verulegir fjármunir gætu orðið til ráðstöfunar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum til að styrkja sveitarfélög við undirbúning sameiningar, endurskipulagningar og uppbyggingar í sameinuðu sveitarfélagi,“ sagði Jón um málið í ræðu sinni á þinginu.

Ræddi Jón einnig um þrjú frumvörp sem nú liggi fyrir Alþingi um sveitarstjórnarmál sem eiga að:

  • afnema lagaskyldu um fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík
  • úthlutun úr Jöfnunarsjóði af tekjum frá sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki
  • heimila ríki og sveitarfélögum gjaldtöku af uppbyggingu bílastæða utan þéttbýlisstaða, til að mynda við ferðamannastaði.

Ásamt því að ítreka umfjöllun sína um veigamikla uppbyggingu stofnleiða í kringum höfuðborgina, mögulega með innheimtu veggjalda ræddi hann um uppbyggingu flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli.

„Mín sýn er að á meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýjan stað fyrir innanlandsflugvöll, þá verður hann áfram í Vatnsmýrinni og að sú starfsemi sem fyrir er á Reykjavíkurflugvelli verði tryggð,“ sagði Jón.

„Ég er heill í því að skoða aðra framtíðarmöguleika, en það er verkefni sem að mínu mati mun taka mörg ár.

Ég hef því lagt mikla áherslu á það að hafin verði uppbygging á flugstöð fyrir farþega og starfsfólk en núverandi aðstaða er óboðleg og því brýnt að fara í þær framkvæmdir strax.“