Eyþór Arnalds oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar hélt þrumuræðu yfir fullum sal Laugardalshallar á Landsfundi Sjálfstæðismanna við lok fundar í gær.

„Við þurfum að stuðla að því að gera kosningadaginn 26. maí aftur að hægri degi í Reykjavík en þá eru nákvæmlega 50 ára síðan skipt var úr vinstri umferð í hægri,“ sagði Eyþór í ræðunni að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Reykjavík verður að vera eftirsóknarverð að búa í. Við erum að keppa við erlendar borgir um unga fólkið okkar. Íslendingum hefur fækkað í Reykjavík og borgin verður að vera brimbrjótur í samkeppni við útlönd.“

Brýndi hann alla Sjálfstæðismenn um að hjálpa til í baráttunni því að 8 ára seta Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, og 16 ár í borgarstjórn kölluðu á breytingar.

Lagði hann mesta áherslu á að fjölga þyrfti byggingarlóðum í borginni til að leysa húsnæðisskortinn, m.a. með því að byggt yrði í Örfirisey, Keldum og Geldinganesi. Einnig sagði hann nauðsynlegt að snúa frá forræðishyggju og ofvexti stjórnkerfisins í borginni, með styttri boðleiðum og bættri þjónustu.