Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vill að lög verði sett til bráðabirgða sem setja takmörk á vexti á lánum fjármálastofnana. Þetta kom fram í yfirlitsræðu hans á flokksþingi Framsóknarmanna sem fram fer í Háskólabíó.

Í ræðu sinni sagði Sigmundur að hvergi annars staðar í heiminum gætu lánveitendur gert 4-5 prósenta raunvöxtum á lánuðu fé. Engin ástæða væri til þess að lánveitendur hér á landi ættu að ná fram slíkri óeðlilegri ávöxtun.

Leggur hann því til að lög um hámarksraunvexti verði sett á meðan íslenska fjármálakerfið er enn í uppbyggingu. Lánveitendur eigi vissulega rétt á ávöxtun á fjármuni sína en sú ávöxtun eigi að vera „eðlileg“ að sögn Sigmundar.

Hann vill jafnframt að ríkið reki svokallaðan samvinnubanka sem myndi tryggja Íslendingum um land allt aðgang að hagstæðu lánsfé.