Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist þeirrar skoðunar að það vanti meira af samstarfi ríkis og einkaaðila í stuðningi við listir, til dæmis með skattalegum hvötum til liststuðnings. „Við sáum það á árunum fyrir hrun fjármálakerfisins að það hafði færst mjög í vöxt að einkaaðilar styddu við menningu og listir. Það var mjög jákvæð þróun og eitt af því jákvæðasta við árin fyrir hrun, þ.e. að fólk sýndi það í verki að menning skipti það máli. Ég vona nú þegar hagkerfið er að eflast að þetta haldi áfram að vaxa. Ég held að við eigum að huga betur að því í gegnum skattkerfið hvernig við getum hvatt til þessa.

Í brjóstvirki kapítalismans, í Bandaríkjunum, nálgast menn þetta með þessum hætti og ég held að við getum lært heilmikið af því. Ég er því mjög hlynntur slíkri ákvörðun. Vandinn er hins vegar sá að þá koma allir aðrir á eftir og kalla eftir hinu sama. Það þarf kannski í sjálfu sér ekki að vera það mikið vandamál. Þar með erum við að innleiða það að fólk hafi meira beint að segja til um hvert skattfé þeirra er að renna. Það getur verið hið besta mál og ákveðin valddreifing fólgin í því.“

Ítarlegt viðtal við Illuga er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .