Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir tíma til kominn að Íslendingar og Færeyingar skipti á sléttu í samningum um fiskveiðar. Skiptimyntin er kolmunni sem skiptir Austfirðinga miklu máli.

Þetta kom fram í máli hans á opnum fundi um sjávarútvegsmál á Eskifirði í gærkvöldi sem Austurfrétt segir frá.

Austurfrétt greinir frá því að samninganefnd frá ráðuneytinu hélt utan í morgun til viðræðna í dag og á morgun. Á fundinum sagðist ráðherrann ekki bjartsýnn á að samningar næðust í þessari viðræðulotu.

Í fréttinni segir jafnframt að Færeyingar hafa leyfi til að veiða 30.000 tonn af loðnu í íslenskri landhelgi á ári auk 5.600 tonna bolfiskkvóta. Kristján Þór sagði Færeyinga sækja á að geta veitt loðnuna yfir lengra tímabil til að geta unnið hrogn.

Á móti fá Íslendingar að veiða kolmunna í færeyskri landhelgi.

„Það er að mínu viti alltof há greiðsla fyrir þessar heimildir,“ hefur Austurfrétt eftir Kristjáni. Hann sagði jafnframt að í ráðuneytinu væri búið að reikna út ákveðnar forsendur sem ásættanlegar séu fyrir Íslendinga og samninganefndin hafi farið út með þær í farteskinu.

„Þeir hafa þau fyrirmæli að skipta á jöfnum verðmætum. Ég tel okkur ekki hafa heimildir til að gefa eftir verðmæti í samningunum. Ef það næst ekki þurfum við að endurmeta stöðuna og mögulega taka erfiðar ákvarðanir ef ekki um semst. Við greiðum ekki meira fyrir þennan aðgang en við nauðsynlega þurfum,“ sagði Kristján.