Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis, vill fá að vita hvernig staðið var að öflun kauptilboða í FIH-bankann í Danmörku, en greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra gegn veði í FIH daginn sem neyðarlögin voru sett árið 2008. Eftir fall Kaupþings var ákveðið að Seðlabankinn myndi leysa til sín nær allt hlutafé í bankanum. Hlutur Seðlabankans í FIH var svo seldur og hefur verið fullyrt að Seðlabankinn hafi tapað yfir 30 milljörðum króna á öllum gerningnum.

Guðlaugur Þór lagði til á fundi fjárlaganefndar í gær að nefndin óskaði eftir lýsingu á söluferli og forsendum fyrir ákvarðanatöku bankans, þann tíma sem bréfin voru í eigu Seðlabankans. Hann vill jafnframt vita hve mörg kauptilboð bárust í bankann fyrir sölu hans til hóps fjárfesta í september 2010 og hvernig Seðlabankinn lagði mat á kauptilboðin. Guðlaugur Þór vill líka vita hvort bankinn telji, eftir á að hyggja, að standa hefði átt öðruvísi að sölu FIH-bankans en gert var á sínum tíma.