Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og 2. varaformaður fjárlaganefndar, telur fyrirhugað 500 milljóna króna lán ríkisins til Íslandspósts vera sérkennilegt og kallar eftir því að málið verði útskýrt betur fyrir þinginu.

„Það er verið að boða lánveitingu sem á að veita í gegnum fjáraukalög. Eftir að við breyttum lögum um meðferð opinberra fjármála þá áttu fjáraukalögin að heyra til undantekninga, eins og til dæmis til að mæta náttúruhamförum eða öðrum óvæntum atburðum. Áður fyrr voru stjórnvöld oft að misnota fjáraukalög og settu eitthvað í fjáraukalög sem þau gátu ekki náð í gegn með fjárlögum. Ég myndi því vilja fá skýringu á því hvers vegna þessi leið er farin. Við erum ekki búin að ganga frá fjárlögum næsta árs. Því veltir maður fyrir sér hvort einhver þörf er á þessu. Af hverju er þörf á þessu og af hverju er ekki hægt að gera þetta í fjárlögum ársins 2019 í stað fjáraukalaga fyrir 2018?

Þetta er ekkert lítil upphæð og þarna er á ferðinni fyrirtæki sem er í sérstakri stöðu, þar sem það er að hluta til með einokun á póstmarkaði í formi einkaréttar. Það á eftir að taka þetta mál fyrir hjá fjárlaganefnd en þegar það verður gert fást vonandi svör við  ofangreindum spurningum. Ef fjármálaráðherra ætlar að nota fjáraukalögin þá þarf hann að mæla fyrir því í gegnum frumvarp sem kemur svo á borðið til okkar í fjárlaganefnd."

Einkarétturinn barn síns tíma?

Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem greint var frá ofangreindu láni, kemur fram að móta þurfi framtíðarstefnu og áætlun um hvernig haga beri póstþjónustu þannig að hún verði sjálfbær. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinni að endurskoðun gildandi lagaramma til að tryggja góða póstþjónustu um allt land.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á árinu að drög að frumvarpi til laga væru í vinnslu hjá fyrrnefndu ráðuneyti. Í drögunum sé lagt til að einkaréttur íslenska ríkisins í póstþjónustu verði lagður niður og opnað verði fyrir samkeppni á póstmarkaði. Drögin eru byggð á breytingum á regluverki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins á sviði póstþjónustu. Samkvæmt þessum breytingum ber Íslandi skylda til að afnema einkarétt ríkisins á póstþjónustu, en Ísland er eina EES ríkið sem hefur ekki innleitt þessa tilskipun og afnumið einkaréttinn. Miðað við rekstrarvanda Íslandspósts og kvartanir samkeppnisaðila vegna starfshátta fyrirtækisins má velta fyrir sér hvort einkaréttur ríkisins á póstþjónustu sé barn síns tíma.

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, segir að þetta málefni hafi áður komið til umræðu innan þingsins.

„Á löggjafarþingi fyrir nokkrum árum síðan voru meðal annars umræður um hvernig tekið yrði á þessum málum til framtíðar. Þá hefur verið frumvarp til vinnslu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um þetta málefni. Það má vera að það líði að því að einkaréttur ríkisins verði afnuminn, þróunin hefur orðið sú í hinum EES-löndunum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við skoðum þetta mál í þessu samhengi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .