Hillary Clinton, frambjóðandi í forsetaforvali Demókrata, segist munu kynna hugmyndir sínar um skattahækkanir á þá tekjuhæstu í þessum mánuði. Hún segir að tillögur sínar gangi lengra en tillögur fjárfestisins Warren Buffetts, en hann vill að tekjuskattur þeirra sem afla yfir 1 milljón dollara á ári - jafnvirði 11 milljón króna á mánuði - nemi að minnsta kosti 30 prósentum. Buffett hefur lýst yfir stuðningi við Clinton í forsetakjörinu.

„Sem forseti mun ég gera það sem nauðsynlegt er til þess að tryggja að hinir ofurríku leggi sinn skerf af mörkum,“ sagði Clinton í tilkynningu þar sem hún brást við skýrslu bandaríska ríkisskattstjórans, Internal Revenue Service. Í skýrslunni kemur fram að meðalskattlagning á 400 auðugustu heimilin í Bandaríkjunum hafi numið 22,89 prósentum árið 2013. Clinton hrósar Barack Obama fyrir að hafa hækkað skatta á þá ríkustu, en meðalskattlagning þessa hóps var 16,72% árið 2012.

Hún segir fjórðung þeirra sem hafa tekjur yfir 250 milljón dollara á ári greiða minna en 20% í skatt. Það sé ósanngjarnt og jafnframt slæmt fyrir hagkerfið, þar sem það setji auknar byrðar á millistéttina og komi í veg fyrir arðbærar fjárfestingar.