Ásgeir Frank Ásgeirsson og Einar Sveinn Pálsson opnuðu nýverið verslunina Akkeri í Kringlunni. Þeir hafa verið vinir í sautján ár, en hafa einungis lifað tuttugu, sem gerir þá að öllum líkindum að yngstu verslunareigendum Íslands.

Ásgeir Frank segir að undirbúningurinn hafi tekið ár – en að þeir félagar hafi gengið með hugmyndina í tvö ár. „Við vorum lengi búnir að plana þetta svo vildum við bara slá til. Við erum góð blanda, hann er svona fatagúrú og ég veit meira hvað er að seljast og hvað er heitast, “segir hann.

Hann segir að þeir hafi verið vinir í sautján ár og eru tvítugir í dag. „Þannig að við erum búnir að vera vinir lengi, við vorum meðal annars saman í grunnskóla í Réttó.“ Spurður hvers vegna þessi tímasetning hafi verið fyrir valinu svarar Ásgeir því að hugmyndin hafi kviknað fyrir tveimur árum og að móðir Ásgeirs, Svava Johansen, betur þekkt sem Svava í Sautján, hafi hjálpað þeim mikið. „Hún er reynslumikil í þessum bransa og hjálpaði okkur gífurlega í gegnum þetta. Ef mig hefur vantað einhverja aðstoð hefur hún verið kennarinn minn,“ segir Ásgeir.

Ungir menn meðvitaðri um tísku

Ásgeir Frank finnur fyrir því að ungir menn séu orðnir meðvitaðri um tísku og telur hann það af sem áður var. „Það er miklu meira um það að strákar vilji kunna að klæða sig. Það er það sem mér finnst stærsta breytingin, áður var þeim oft alveg sama. Það sem mér finnst til að mynda heitast í dag eru merkjavörur á borð við Reebok, Adidas og Fila, þessi merki eru að koma mjög sterk inn í dag,“ segir Ásgeir.

Verslunin Akkeri býður upp á talsvert úrval af fötum og ekki einungis formlegan klæðnað.„Við erum bæði með fín föt og svo erum við líka með svolítið öðruvísi deild. Það er ítalskt merki sem heitir Imperial sem við erum að taka inn. Það er öðruvísi en það sem tíðkast á Íslandi. Við þurfum að kynna það betur, en það er byrjað að seljast frekar vel núna,“ segir Ásgeir Frank. „Fyrst voru það aðallega jakkaföt, skyrtur og frakkar, sem voru að seljast hjá okkur, en núna upp á síðkastið hefur Imperial-merkið komið sterkt inn,“ bætir hann við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .