Eitt stærsta félag í rafmyntaiðnaði í heiminum hefur komið upp starfsemi hér á landi. Félagið er bandarískt og heitir Cloudhashing, en það leigir aðstöðu undir bitcoin námuvélar í gagnaveri Verne Global í Reykjanesbæ og hefur gert síðan í fyrra. Þetta staðfestir Tate Cantrell, yfirmaður tæknimála hjá Verne Global. Hvert bitcoin er nú metið á 457,69 dali og heildarverðmæti rafmynta sem Cloudhashing gróf upp á árinu eru því að minnsta kosti 6.366.676 dalir, jafnvirði 735.287.411 íslenskra króna

„Cloudhashing er eina fyrirtækið á rafmyntamarkaðnum sem hefur fjallað um starfsemi sína á Íslandi. Þeir opinberuðu þetta í fyrsta skipti árið 2013,“ segir Cantrell.

Spurður að því hvort önnur félög í rafmyntageiranum hafi sýnt Íslandi áhuga segir Cantrell að svo sé. „Við erum stöðugt að tala við hugsanlega viðskiptavini um að færa starfsemi sína í gagnaverið okkar. Að segja frá því hverjir það eru er ekki tímabært á þessu stigi,“ segir Cantrell. Hann segir Ísland vera sérstaklega heppilegan stað til reksturs gagnavera og þar með rafmyntagraftar. „Ástæða þess að Ísland er ákjósanlegur staður til að reka gagnaver er auðvelt og nægt aðgengi að rafmagni,“ segir Cantrell. Rafmagn megi fá á samkeppnishæfu verði sem sé aðlaðandi fyrir fyrirtæki í rafmyntaiðnaði, en stærsti kostnaðarliður við rafmyntagröft sé rafmagnskostnaður.

Í frétt á vef International Business Times frá því í mars á þessu ári segir að Cloudhashing áætli sjálft að námuvélar félagsins grafi upp bitcoin fyrir að jafnvirði 20 milljónir Bandaríkjadala í hverjum mánuði. Á heimasíðu félagsins segir að samanlögð reiknigeta námuvéla þess séu 2,62 petahösh á sekúndu. Það eru 1,46% af allri reiknigetu í bitcoin-námukerfinu eins og staðan er í dag.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Tækni, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .