Framkvæmdum við nýja bolfiskvinnslu HB Granda á Vopnafirði miðar vel og ef allt gengur að óskum gæti bolfiskvinnsla á vegum félagsins hafist í nóvembermánuði nk. Vinnslan er til húsa þar sem Tangi hf. starfrækti áður frystihús og er vinnslusalurinn um 500 fermetrar að flatarmáli. Þar munu 35 til 40 manns vinna við bolfiskvinnsluna.

Að sögn Bárðar Jónassonar, tæknistjóra HB Granda á Vopnafirði, er von á frystivélum nú um mánaðamótin sem og loftræstisamstæðunni fyrir loftræstikerfið. Annar búnaður er á áætlun.

,,Við verðum hér með hausara og tvær flökunarvélar frá Curio ehf. í Hafnarfirði. Karabúnaður, roðkælir og roðrifubúnaður kemur frá Skaganum hf. á Akranesi og Flexicut vatnsskurðarvél og snyrti- og pökkunarlína er frá Marel,“ segir Bárður en áður en hægt verður að koma öllum fiskvinnslubúnaði fyrir þarf að leggja lokahönd á frágang vinnslusalarins.

Nánar um  málið á vef HB Granda.