*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 5. september 2012 13:34

Vinnuvikan lengist í sex daga

Frítími Grikkja gæti breyst verulega verði þær hugmyndir að veruleika að lengja vinnuvikuna úr fimm dögum í sex.

Ritstjórn
Grikki lætur í sér heyra í Aþenu.

Grikkir þurfa að spýta í lófana og bretta upp ermar miðað við nýjustu hugmyndir kröfuhafar landsins hafa rætt sín á milli. Á meðal tillagnanna er að vinnuvikan verði lengd um einn dag og verði Grikkjum gert að vinna í sex daga í stað fimm með það fyrir augum að auka tekjur gríska ríkisins.

Fundað verður um málið í vikunni þegar sendifulltrúar Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og evrópska seðlabankans hittast á Grikklandi. Breska ríkisútvarpið, BBC, segir kröfuhafana vinna nú að ritun skýrslu um stöðu mála á Grikklandi sem væntanleg er í næsta mánuði. Niðurstöður skýrslunnar eiga að skera úr um hvort Grikkir fái næsta skammt af neyðarlánum, 31,5 milljarða evra, jafnvirði tæpa 4.900 milljarða íslenskra króna. 

Grikkir hafa mokað til sín lánum frá alþjóðlegum stofnunum. Stjórnvöld fengu 110 milljarða evra lán í maí fyrir tveimur árum og 130 milljarða til viðbótar í október í fyrra. Á sama tíma voru um 100 milljarðar evra afskrifaðar af skuldum landsins.