Sífellt fleiri veitingastaðir á Bretlandseyjum taka Fish and chips, djúpsteiktan fisk með djúpsteiktum kartöflum, af matseðli sínum. Þessi réttur var áður einn sá vinsælasti í Bretlandi en hefur nú fallið í vinsældum úr 3. sæti í það áttunda.

Könnun markaðsrannsóknafyrirtækisins Horizon á 800 veitingastöðum, ölkrám og hótelum leiddi í ljós að fjórðungur þeirra býður ekki lengur upp á fisk og franskar og hafa skipt út þessum þjóðarrétti Breta fyrir salatrétti.

Yfir 50% matsölustaða hafa sett salatrétti sem aðalrétti á matseðil sinn á undanförnu einu ári. Þar er um að ræða rétti eins og m.a. salat með geitaosti, túnfiski og kjúklingi. Salatréttir af þessu tagi eru nú fjórðu vinsælustu aðalréttirnir á matsölustöðum en komust ekki á lista yfir þá 20 vinsælustu á síðasta ári.

Könnunin sýnir einnig  að tíðni orðsins „ofurfæða“ í almennri umræðu um mat hefur aukist um 75% miðað við sama tíma í fyrra. Grænmetisréttir eru helmingi algengari á borðum neytenda en þeir voru 2010.

Þótt sushi og túnfiskur sé að verða vinsælli sjávarréttir þýðir það þó ekki endalokin fyrir fisk og franskar. 2013 birtist grein í Daily Telegraph um 10 algenga rétti sem taldir hafa verið til óhollustu en eru þó heilsusamlegri en í fyrstu var talið. Í efsta sæti á þeim lista er fiskur og franskar sem,  þrátt fyrir að vera mjög hitaeiningaríkur réttur, er einkar næringarríkur matur vegna fisksins. Í greininni var því haldið fram að fiskur og franskar getur verið hluti af heilbrigðri fæðu svo lengi sem neyslan er í hófi.