Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, myndu tæp 32 prósent kjósa Pírata og 29,9 prósent Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga um þessar mundir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætir við sig fylgi en samkvæmt könnuninni myndu 14% kjósa flokkinn. Hreyfingin bætir þannig við sig tæpu þriggja prósenta fylgi milli mánaða. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru jafnstór og myndu rúm átta prósent kjósa hvorn flokk. Björt framtíð er með fjögurra prósent fylgi. Samkvæmt því myndi Björt framtíð ekki fá kjörinn þingmann í alþingiskosningum.

Yrðu þetta niðurstöður kosninga fengju Píratar hins vegar 22 þingmenn kjörna og yrði stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 21 þingmann kjörinn, Vinstri grænir níu, Samfylkingin sex og Framsóknarflokkurinn fimm.