Nokkur viðsnúningur hefur verið í því hvernig fólk hlustar á tónlist. Nú hafa tíðindi borist úr plötuútgáfuheiminum, því að í fyrsta sinn eyddi fólk meiri pening í plötur heldur en í niðurhal í síðustu viku.

Vínylsala skilaði plötuútgefendum 2,4 milljónum punda eða því sem samsvarar 335,3 milljónum íslenskra króna. Hins vegar skilaði niðurhal plötuútgefendum 2,1 milljónum eða 293,4 milljónum íslenskra króna ef tekið er mið af gengi dagsins í dag, samkvæmt tölum Entertainment Retailers Association (ERA).

Á sama tíma í fyrra skilaði sala á vínylplötum 1,2 milljónum punda samanborið við 4,4 milljónum punda sem niðurhal skilaði. Niðurhal á plötum hefur minnkað talsvert á síðustu misserum, þar sem að tónlistaráhugamenn nýta sér í auknum mæli streymiþjónustu á borð við Spotify til þess að hlusta á tónlist.

Vínylplötur eru vinsæl jólagjöf og telja ERA að það spili inn í tölur fyrir þessa viku. Nú hafa vinsælar verslanir í Bretlandi á borð við Tesco og Sainsbury's hafið sölu á þeim.

„Þetta er sönnun þess að plötuáhugamenn hætta ekki að koma á óvart,“ er haft eftir forstjóra ERA í frétt BBC um málið. Upprisa vínylplötunnar hefur verið ein af áhugaverðustu sögum hinnar stafrænu aldar. Sala á plötum hefur vaxið statt og stöðuglega frá árinu 2007, þegar þær voru í útrýmingarhættu og eiga 2% markaðshlutdeild.