„Ég hef starfað við bókaútgáfu alla mína hunds- og kattartíð. Ég ætlaði ekki að verða bókaútgefandi. Ég er þó þriðju kynslóðar bókaútgefandi. Afi minn stofnaði Iðunni og faðir minn stofnaði Forlagið 1984 eftir að hafa unnið á Iðunni líka. Ég útskrifast úr menntaskóla og vissi ekkert hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég fékk þá vinnu sem átti bara að vera tímabundin hjá Máli og menningu en hef ekki hætt í bókabransanum síðan.“

Þetta segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Forlagsins. Fyrirtækið gefur út bækur undir merkjum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Heimskringlu ásamt því að reka eigin bókaverslanir.

Hvernig er stemmingin hjá ykkur á þessum árstíma?

„Spennustigið er hátt. Það er vertíðarstemming og við erum á fullu. Á þessum árstíma horfi ég stundum í spegil á morgnana og reyni að segja við sjálfan mig að ég þurfi ekki að vera svona taugaveiklaður, svona víraður og yfirspenntur, vegna þess að staðreyndin er sú að jólavertíðin vigtar aðeins um  fjórðung af ársveltu Forlagsins. Þannig að hér er ekki um „make or break“ að ræða fyrir fyrirtækið.

Ég veit ekki hvort það er orðið genetískt hjá mér eður ei, að ég er í mjög sérkennilegu ástandi og kann eiginlega ekki að lýsa því öðruvísi en að segja að ég sé hátt stemmdur og víraður. Ég hef til dæmis haft þá reglu árum saman að taka aldrei stórar persónulegar ákvarðanir á þessum tíma bara vegna þess að ég met það svo að ég sé ekki í ástandi til þess. Hugurinn er algjörlega fókuseraður á vinnuna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .