Matsmenn verða fengnir til að endurmeta virði Blikastaðalandsins á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, samkvæmt ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir helgi. Eigendur landsins óskuðu eftir því að matsmenn yrðu kallaðir til og munu þeir nú setjast niður með lánveitendum og ákveða hverjir munu framkvæma matið. Gangi það ekki mun dómurinn tilnefna matsmenn.

Það er verktakafyrirtækið Eykt sem skráður eigandi Blikastaðalandsins ásamt þrotabúi VBS Fjárfestingarbanka í gegnum félagið Bleiksstaði.

Eykt og VBS keyptu landið í febrúar árið 2008 á 65 milljónir evra, jafnvirði 6,2 milljarða króna á þávirði. Lánið hefur stökkbreyst síðan þá og stendur það nú í 10,3 milljörðum. Kaupþing lánaði fyrir kaupunum og gjaldfelldi Arion banki lánið fyrir ári. Viðræður hafa staðið yfir um framtíð Bleiksstaða síðan í fyrra og hefur komið til tals að Arion banki taki það yfir. Bankinn óskaði eftir því 23. maí síðastliðinn að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Eignir Bleiksstaða, sem liggja í Blikastaðalandinu, eru bókfærðar í síðasta ársreikningi félagsins á 7,4 milljarða króna og snýr nýtt mat um endurútrekning á þeim.

Í skýringum við ársreikninginn árið 2010 segir að þrátt fyrir gjaldfellingu á láninu þá séu stjórnendur félagsins í samráði við viðskiptabanka félagsins enn að vinna að lausnum fyrir félagið. Náist ekki samningar við lánveitendur félagsins um eftirgjöf skulda þá sé rekstrarhæfi félagsins brostið.

Gert er ráð fyrir því að á Blikasstaðalandinu verði svokallaðar athafnalóðir ásamt íbúðabyggð með 1.800 íbúðum, bæði blandaðri byggð einbýlishúsa, sérbýla og fjölbýla.

Blikastaðir
Blikastaðir
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)